Áratugur Endurheimtar Vistkerfa 2021-2030

Ákall um verndun og endurheimt vistkerfa um heim allan í þágu fólks og náttúru.

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Tolli vekur athygli á áratug Sþ um endurheimt vistkerfa með málverkagjöf

Tolli er einlægur talsmaður verndar og endurheimtar votlendis og hefur tekið virkan þátt í hérlendri umræðu um mikilvægi endurheimtar vistkerfa til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi. Í upphafi árs, þegar áratugur Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa 2021-2030 hófst, ákvað hann að gefa Landgræðslunni listaverk til að minna okkur öll á mikilvægi verndar og endurheimtar vistkerfa um allan heim. Myndin sýnir að sjálfsögðu votlendi. „Þessi mynd hefur að geyma minni um votlendið sem vistkerfi. Myndin er táknræn fyrir þetta verkefni,“ sagði Tolli þegar hann nýlega afhenti Árna Bragasyni landgræðslustjóra listaverkið. „Þessi mynd dregur mann að sér,“ sagði Árni um verkið sem verður hengt upp í aðalfundarsal Landgræðslunnar í Frægarði í Gunnarsholti. „Ég sé þetta verk fyrir mér sem táknmynd fyrir upphaf áratugar vistheimtar.“

Vernd og endurheimt vistkerfa er eitt brýnasta umhverfis-, loftslags- og velferðarmál sem heimurinn allur stendur frammi fyrir um þessar mundir og það á svo sannarlega við hér á Íslandi. Yfir helmingur af landvistkerfum okkar er í röskuðu ástandi. Þó Ísland eigi yfir 100 ára sögu af vinnu við stöðvun jarðvegseyðingar og endurheimtar raskaðra vistkerfa þá er enn afar langt í land með að öll íslensk vistkerfi séu jafn virk og fjölbreytt og vistgeta þeirra gefur til kynna. Næstu 10 árin mun Landgræðslan fylgja eftir áherslum áratugs Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa og vonast til að fá liðsinni allra Íslendinga við þetta risavaxna verkefni sem varðar okkur öll. Tolli er með, hvað með þig?

Árni Bragason og listamaðurinn Tolli við verkið Votlendi

Tolli. Votlendi. Oil On Canvas 160 X 160

Tolli. 

Hvað er endurheimt vistkerfa?

Endurheimt vistkerfa snýst um að stuðla að því að röskuð vistkerfi nái aftur fullri virkni samhliða því að vernda óröskuð vistkerfi. Öflugri vistkerfum fylgir meiri líffræðileg fjölbreytni, frjórri jarðvegur, meiri uppskera, meiri kolefnisbinding og meiri kolefnisforði.

Vertu með #GenerationRestoration

Fáðu nýjustu fréttir, frásagnir og reynslusögur