Ræktunarland

Ræktarland þekur um þriðjung þurrlendis á jörðinni og er eitt mikilvægasta vistkerfi mannkyns til að framfleyta sér. Þaðan fáum við mat, trefjar og fóður og ýmsar nauðsynjar en þar búa líka fjölmargar tegundir lífvera. Við leggjum hins vegar of mikið álag á þessi vistkerfi og göngum svo hratt á auðlindir þeirra að tæpast eða ekki verður aftur snúið. Mörg þessara svæða eru gjörnýtt til dæmis með einhæfri ræktun, of mikilli plægingu eða ofbeit. Einnig er í mörgum tilfellum fjarlægt of mikið af gróðri, trjám og runnum sem leiðir til jarðvegseyðingar. Ofnotkun áburðar mengar ár og vötn og spillir jarðvegi. Skordýraeitur veldur einnig skaða á mikilvægum þáttum í lífríki þessara vistkerfa, til dæmis ýmsum frjóberum sem gegna mikilvægu hlutverki í hringrás vistkerfanna.

Vísindamenn hafa unnið að því að hjálpa ýmsum dreifbýlissamfélögum við að endurheimta og betrumbæta ræktunarvistkerfi sín með því að nýta betur ýmsa náttúrulega ferla. Þannig hafa sumir bændur minnkað jarðrask og nýta sér nú náttúrulegan áburð og náttúrulegar meindýravarnir. Með skiptiræktun, ræktun fjölbreyttari nytjaplantna, gróðursetningu trjáa og runna á ræktunarsvæði og blandaðri beit búfénaðar hefur bændum tekist að endurheimta líffræðilega fjölbreytni vistkerfanna og framleiða fjölbreyttari og næringarríkari fæðu á sínu landi. Einnig hefur það skilað góðum árangri að beita akurlendi eftir að uppskeru lýkur. Með þessháttar skrefum í átt að endurheimt ræktunarvistkerfa er hægt að byggja aftur upp lífrænan kolefnisforða og samfélög jarðvegslífvera sem stuðla að því að miðla vatni og viðhalda náttúrulegri frjósemi jarðvegsins.

Læra meira:

Lauslega þýtt af vef decadeonrestoration.org

Vertu með #GenerationRestoration

Fáðu nýjustu fréttir, frásagnir og reynslusögur